Artist Residency

Belonging to the Secret Garden is a writers residency connected to the Icelandic writers association.
It is located in an old family house a few steps from the garden. Further information in Icelandic.

Secret Garden Artist Annex “Grímsbær”

Vinnustofudvöl fyrir myndlistarmenn og rithöfunda

í Fort Cochin, Kerala, Indlandi

Listamaðurinn fær til umráða hús sem hefur fengið vinnuheitið Grímsbær, vegna þess að fyrsti listamaðurinn sem þar dvaldi var rithöfundurinn Hallgrímur Helgason. Grímsbær er steinsnar frá Secret Garden hótelinu, þar sem listamaðurinn hefur aðgang að sundlaug og máltíðum tvisvar á dag, morgunverði og hádegisverði. Starfsfólk hótelsins sér um vikuleg þrif og er listamanninum innanhandar með praktískar upplýsingar. T.d því sem lítur að efnisöflun til listsköpunnar. Internet fylgir og afnot af reiðhjóli. Þvottaþjónustu þarf hver gestur að borga fyrir sig. Húsið er með loftkælingu. 

Grímsbær er lítið fjölskylduhús í eigin garði. Þar er svefnherbergi, eldhús, bað og stofa eða vinnuherbergi. Húsið er leigt út til listamanna á mánaðrgrundvelli og kostar mánuðurinn 120 þúsund fyrir einstakling og 190 þúsund fyrir tvo.

Secret Garden er hótel á Suður-Indlandi í eigu Seyðfirðingsins Þóru Guðmundsdóttur arkitekts. Hótelið tók á síðasta ári í notkun þetta hús í næstu götu við sig sem það hefur leigt út til myndlistarmanna og rithöfunda.

https://secretgarden.in/

instagram #secretgardenkochi

Áhugasömum er bent á að setja sig í samband við Þóru Guðmundsdóttur umsjónarmann og eiganda sem veitir frekari upplýsingar. Ef fólk hefur hug á að sækja um er gott að hafa um tveggja mánaða fyrirvara á umsókn.

Sendið póst á tora.bergny@gmail.com og hafið í subjectline:

“Secret Garden Artist Annex Vinnustofudvöl”

Cochin er hafnarborg og menningarlega séð höfuðborg Kerala. Hún er í árósum sjö fljóta, sem renna í Arabíuhafið og því umflotin vatni. Íbúarnir kalla hana drottningu Arabíuhafsins en útlendingar gjarnan Feneyjar Asíu.

Frá ómuna tíð hefur þessi örugga höfn laðað að sér sjófarendur, kaupmenn og valdsmenn. Hún var hliðið að auðæfum Suður-Indlands. Arabar, Kínverjar, Portúgalir, Hollendingar og Bretar hafa komið við sögu og skilið eftir sig spor sem helst má rekja í matarmenningu og húsagerðarlist. 

Secret garden og Grímsbær eru 100 ára gömul hús í friðsælu íbúðahverfi í miðjum gamla bænum “Fort Cochin”, í göngu- eða hjólafæri frá öllu því helsta sem vert er að skoða og upplifa. Í Cochin var haldin fyrsti og eini alþjóðlegi myndlistartvíæringurinn á Indlandi árið 2012. Hann hefur þegar unnið sér nafn og laðað til sín fjölda merkra listamanna og verður haldinn í þriðja sinn á þessu ári, en árið um kring eru listamannaspjöll og sýningar á vegum tvíæringisins.http://www.biennialfoundation.org/biennials/kochi-muziris-biennale-india/ 

Þá eru ótaldir tónleikar og danssýningar alla 7 daga vikunnar, töluverð flóra

listsýninga, kaffihús og veitingastaðir á hverju götuhorni, antíkmarkaðir, skraddarar og ayurvedískar nuddstofur en ayurveda-læknislistin fæddist og hefur varðveist í Kerala í þúsundir ára.

 

Praktískar upplýsingar fyrir Indíafara

frá Þóru Guðmundsdóttur

Fyrst af öllu minni ég á að það er nauðsynlegt að útvega sér vegbréfsáritun í indverska sendiráðinu í Reykjavík áður en lengra er haldið. Hægt er að fá allt að 6 mánaða visum en og best að biðja um multible entrance ef einhverjir myndu vilja fara og koma aftur til Indlands á tímabilinu. Það tekur um viku til tíu daga að fá áritun. 

Í Cochin er alþjóðlegur flugvöllur. Þangað eru dagleg flug til og frá Evrópu með einhverju arabísku flugfélaganna (t.d. Emirates, Qatar Air eða Edihad). Flugið tekur 6 tíma niður í Persaflóann þar sem þessi flugfélög hafa viðkomu í sinni heimahöfn og svo 4 tíma áfram til Cochin þar sem Secret Garden bíður með leigubíl til að flytja gesti síðasta spölinn sem er um 30 kílómetrar og getur tekið 1 og ½ tíma að keyra, í ævintýralegri indverskri umferð.

Besti farangurinn í Indlandasferð er hálftóm ferðataska, því að ábyggilega er margt, sem ykkur langar til að taka með ykkur heim af fjarlægum slóðum. Hita- og rakastigið er slíkt að íslensk sumarföt svo sem t-bolir og gallabuxur reynist of hlýr fatnaður. Hitinn er frá 32-36 stig á daginn og fer niður í 26 stig á kvöldin. Loftrakinn er mikill svo allt sem loftar og andar er besti klæðnaðurinn. Uppáhalds léreftskjóllinn og þunnar skyrtur og buxur eru fínn farangur. Slík föt er líka hægt að kaupa mjög ódýrt eða láta sauma sem tekur oftast ekki nema daginn. Það eru skraddarar á hverju götuhorni bæði í Cochin og Varkala. Ef þið eigið góðan sólhatt eða derhúfu er gott að hafa slíkt meðferðis, eins eru sólgleraugu góður ferðafélagi, líka þau með sjónglerjum. Annars er afskaplega hagkvæmt að kaupa gleraugu á Indlandi.

Það er alveg nauðsynlegt að hafa á fótunum góða opna skó eða sandala. En einnig má kaupa slíkt á staðnum fyrir slikk. Mikið er til af góðum ayurvedískum kremum, tannkremum, sápum og sjampóum í Cochin.

Moskítóflugurnar reynast íslenskum ferðalöngum erfiðastar viðfangs. Þær eru skæðastar í ljósaskiptunum og er þá um að gera að smyrja sig vel í með moskítófælu. Heimamenn nota krem sem heitit Odimous sem er ódýrt og áhrifaríkt.  Þeir sem bregðast mjög illa við bitum ættu að útvega sér antihistamín sem kemur í veg fyrir sterk ofnæmisviðbrögð.

Heilbrigðismál. Það verður hver og einn að taka ábyrgð á því hvort hann vill gangast undir bólusetningar áður en haldið era f stað. Kerala er mjög öruggt svæði, þar er til að mynda engin malaría svo allavega ráðlegg ég ykkur að vera ekki að taka malaríulyf sem er hið versta eitur fyrir líkamann. Taugaveiki eða “thifoid” er tiltölulega algengt á þessum slóðum og smitast með vatni og matvælum svo bólusetning við henni sem varir í 3 ár er kannski ekki úr vegi. Þetta verður hver að meta fyrir sig í samráði við sinn lækni. Bólusetningar geta líka orkað tvímælis og ekki allir á eitt sáttir um ágæti þeirra.

Verðlag. Þó að þið séuð eflaust vel birg af öllum hlutum er alveg hugsanlegt að ykkur langi að kíkja aðeins í búðir. Verðlag er almennt miklu lægra en við eigum að venjast héðan og vöruúrval mikið. Það er t.d sérstakt ævintýri að fara í silkibúðina þar sem ódýrasti saree-inn kostar 500 kall en þau dýrustu og íburðarmestu fleiri hundruð þúsund. Eins er kryddmarkaðurinn magnaður og kaffibúðin ilmandi og lokkandi að ég tali nú ekki um ísmeygilegu Kasmíra-búðirnar þar sem fremstu sölutæknar heimsins falbjóða hverskonar gersemar. Cochin er jafnframt þekkt fyrir víðáttumikla markaði með “antíkmuni”, bæði nýja og gamla.

Secret Garden verður ykkar móðurstöð á Indlandi. Þar vinnur yndislegt og hjálpsamt fólk sem vill allra götu greiða. Í Cochin er hægt að fara í allskyns persónuleg viðhaldsverkefni. Nuddstofur og yogastudió eru á öðruhverju götuhorni. Góðir augn- og tannlæknar veita frábæra þjónustu og Secret Garden er með sinn eiginn snjalla skraddara sem hefur skilað mörgum manninum heim með endurnýjað garderobe. 

Hægt er að tékka farangur alla leið til Íslands frá Cochin og leyfilegt er að fara með 30 kg í inntékkaðan farangur og 10 kg í handfarangur ef flogið er út úr landinu frá Cochin. Í Secret Garden er góð farangursvog.

Indland er gott heim að sækja, maturinn er góður, fólkið er hlýtt, landið fagurt og aðbúnaður ferðamanna allur hinn besti. Þar er þó  ALLT með öðru sniði en heima hjá okkur sem gerir það óumræðilega spennandi og skemmtilegt að fá að sjá og kynnast.

– Þóra Bergný Guðmundsdóttir